27.10.2007 | 10:45
Frímerki fyrir fimmkall
Næsti bær er Kópsvatn og þar er tvíbýli. Í vesturbænum bjó Nói og konan hans hét Guðrún. Hún fór áreiðanlega aldrei á mannamót og ég sá hana aldrei. Börnin þeirra, Dendi og Dísa, áttu þarna heima líka og bæði þau og Nói voru þar sem fólk kom saman, svo mér voru þau ekkert ókunnug.
En í austurbænum bjó María með sonum sínum, Guðmundi, Bjarna og Magga. Á þeim árum var ekki bílfær vegur frá Bryðjuholti fram í Grafarhverfi svo ekki varð komist þangað nema gangandi eða ríðandi. Að vísu var bílvegur upp í Kirkjuskarð og svo hjá Hruna niður sveitina en það var óravegur og ekki farið nema nausyn bæri til. Þegar svo vegur var lagður þessa leið varð til hringvegur sem sveitungarnir kölluðu Maríuhringinn til heiðurs Maríu á Kópsvatni.
Ég þarf eiginlega að lýsa kynnum mínum af Kópsvatni um leið og Bryðjuholt kemur til sögunnar, svo það er best að halda þangað.
Í Bryðjuholti bjuggu Magnús og Sigga með börnunum Finnu, Helgu, Guðmundi, Önnu og Sigga. Anna og Siggi voru jafnaldrar okkar Arnar og við komum þarna oft.
Ekki þó eingöngu til gamans, heldur áttum við þangað mikilvægt erindi einu sinni á ári. Við vorum send á hverju hausti með bréf frá Pabba til Magnúsar, þar sem falast var eftir hrossi til slátrunar. Erindisbréfið var látið í vasa og nælt þar fast með öryggisnælu.
Við fórum alltaf gangandi yfir Högnastaðaásinn, þaðan að Múlanum(Bryðjuholtsmúla) síðan inn með honum og þá vorum við komin alla leið. Þetta var töluverður spölur og við höfum ekki verið nema svona átta til tíu ára þegar við hófum þessar feðir.
Einu sinni man ég að bréfið var týnt þegar að Bryðjuholti kom og vorum við þá í slæmum málum. En sjálfsagt hefur Magnús grunað að við ættum svipað erindi og áður á þessum árstíma. Svo fannst nú bréfið þegar heim var komið - í öðrum vasa en við héldum. En ég man að mér leið ekki vel þennan dag, slæmt að klúðra svona mikilvægu trúnaðarmáli.
Við máttum alltaf stansa og leika okkur við krakkana góða stund í þessum ferðum. bara ef við vorum send af stað til að komast heim í björtu var allt í lagi.
Við fórum þá stundum upp að Kópsvatni til að skoða frímerkin hans Gvendar. Gvendur var stúdent og hann vissi allt um allan heiminn. Frímerkin voru líka frá útlöndum, þau fyrstu sem við sáum þaðan. Ef við áttum krónur í vasanum gátum við fengið að kaupa poka með frímerkjum og það voru alveg mörg hundruð merki fyrir bara fimm eða tíu krónur.
Magnús í Bryðjuholti var líka töluvert merkilegri en aðrir menn. Hann hafði farið til Svíþjóðar, þar sem sagað var gat á hausinn á honum og tekið þaðan æxli. Síðan var hausnum lokað aftur. Systkinin sögðu okkur þessa sögu hreykin, og sýndu okkur til sönnunar mynd, í fínum ramma á skápnum í stofunni. Hún var af útlenda lækninum sem hafði framkvæmt þetta afrek. Þetta var örugglega alveg satt. Höfuðmeinið háði Magnúsi ekki eftir þetta og ég man vel eftir honum, enda var ég komin yfir tvitugt þegar hann lést. Hann var sérstaklega duglegur bóndi og hafði stundum svolítið hátt í réttunum.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
26.10.2007 | 20:38
Á skeiðspretti heim í hlað
Nú held ég af stað niður sveitina og fer þá leið sem við fórum gjarnan heim frá því að reka á fjall. Þegar rekið var á fjall var rekið í einni lotu einn dag og næstu nótt án þess að sofa. Komið var á leiðarenda snemma morguns, misjafnlega þó eftir því hvað langt var farið. Við vorum á heimleið síðdegis á öðrum degi, enn ekkert farin að sofa. Svo var komið við á bæjum, ekki bara einum, heldur mörgum.
Fyrst er komið að Haukholtum. Þar bjuggu þegar ég man fyrst Ásta og Steini, foreldrar Oddleifs og Lofts. Þarna var líka til heimilis Jón, bróðir Ástu, en hann var yfirleitt í vinnumennsku á öðrum bæjum, til dæmis oft í Hvammi. Hann var einstaklega barngóður og fengum við að njóta þess. Hann var líka leikari af Guðs náð. Hann varð svo húsvörður í Félagsheimilinu á Flúðum og var þar í mörg ár.
Ég man að við komum að Haukholtum og drukkum þar kaffi seint um kvöld og einu sinni man ég líka að ég var aldeilis ánægð með mig þegar mér tókst að skeiðleggja Silfurtopp á heimreiðinni þar að bæ. Ekki spillti fyrir að fjöldi manns stóð á hlaðinu og fylgdist með sprettinum.
Hvítárdalur var litil jörð, með litlum húsum, góðum hjónum og mörgum börnum. Dagbjartur og Margrét voru indæl og börnin þeirra líka. Dísa Jón, Gréta, Sigga og Bjössi voru á svipuðum aldri og við systkinin og pabbi og Dagbjartur voru vel kunnugir. Þeir höfðu verið saman í Hreppakórnum, sem þá var karlakór og svo grunar mig núna að þeir hafi verið sammála í pólitík. Ég kom þó aldrei að Hvítárdal á þessum árum.
Í Skipholti var tvíbýli. Á öðrum bænum bjó Stefán Guðmundsson, en á hinum Jón og Sigrún. Ég er viss um að ég kom í bæinn hjá Stefáni þegar ég var lítil - líklega mjög lítil. Ég man bara að ég var þar inni í gömlu húsi og að borðdúkurinn var eitthvað eftirtektarverður - einhver blúnda. Kona Stefáns hafði verið Guðrún systir Helga í Hvammi, en hún var látin löngu áður en ég fæddist.
Á hinn bæinn kom ég ekki fyrr en ég kom um hánótt í kaffi hjá Rúnu og Guðmundi Kristmundssyni, eftir að þau byggðu nýtt hús. Auðvitað á leið heim úr rekstri.
Sömuleiðis kom ég margoft að Kotlaugum sömu erinda. Þar bjuggu Vala - Jónsdóttir frá Skipholti og Siggi, sonur Kristmundar á Kaldbak. Synir þeirra Kristmundur og Sigurjón voru smástrákar á þessum tíma. Þetta var, og er alveg einstaklega elskuleg fjölskylda, ekkert nema þægilegheitin og gestrisnin alla tíð. Þar fórum við helst ekki hjá garði án þess að líta inn - hvenær sem var sólarhringsins. Á öllum þessum uppsveitabæjum var ekkert of gott fyrir rekstrarfólkið og sjálfsagt alla aðra sem komu þar við.
Jón bjó í Skollagróf, sem við oftast létum nægja að kalla Gróf. Hann var þar einn lengi framanf og ég þekkti hann bara í sjón. hann var þekktur fyrir hestamennsku, kveðskap og pólitískan áhuga. Hann átti á tímabili eitt frægasta hestakyn sunnanlands. Jón var kunnugur pabba fyrir pólitíkina - grunar mig.
Svo fékk hann sér ráðskonu og með henni tvíbura sem hún átti og þau eignuðust svo saman þrjú börn. Ég hef aldrei komið að Gróf. Bærinn stendur dálítið úr leið eigi maður þangað ekki erindi.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
26.10.2007 | 09:04
Kaffi og koníak
Á leiðinni frá Laugum að Fossi, fyrir innan "Gildurhagann", sem er falleg reiðleið, var bærinn Jata. Þar bjó maður sem hét Guðjón Jónsson einyrkjabúskap. Hann var bróðir Magnúsar í Bryðjuholti og Jóns í Gróf. Guðjón var held ég aðallega hrossabóndi og braskari. Hann fór um sveitir með slatta af hrossum sem hann seldi, til þess svo að kaupa önnur. Af honum var hann Skjóni minn keyptur þegar ég fékk hann, en Skjóni var upphaflega frá Skálholti.
Að Jötu kom ég ekki fyrr en Guðjón var farinn þaðan og allt komið í eyði. Ég man að okkur fannst skrýtið að það kom vatn úr krana sem við skrúfuðum frá þarna við auðan bæinn. það var eins og lífsmark þar sem ekkert var annað kvikt. Við fórum þessa leið oft þegar við komum frá að fylgja rekstri. Þá fóru krakkar kannski með upp að Fossi, eða þegar best lét áleiðis inn á Tungufellsdal. Seinna keypti einhver sértrúarsöfnuður jörðina, Jötusystkin, kölluðu þau sig, og byggðu þar nokkur sumarhús.
Á Fossi bjuggu systkinin Rúna og Bjarni. Þar kom ég lengi vel á hverju vori og þáði kaffi, eða mjólk og með því. Það var þegar við rákum á fjall á vorin og áðum þar við túngarðinn. Þá var alltaf sendur krakki að sækja okkur og við fórum heim í tvennu lagi. Einhver varð að líta eftir rekstrinum. Á "Skerslunum", sem eru í hæðunum vestan við Foss, fórum við oft í berjamó. Þá fékk pabbi hvammséppann lánaðan, tróð þar inn konu, fjórum krökkum og nokkrum berjafötum og svo tíndu þau heilan dag. Við vorum líklega mest í því að tína uppí okkur.
Gvendur í Hlíð var þar búandi einhver ár eftir að ég fór að hafa samfélagsvitund. Eitthvað minnir mig að verið væri að hjálpa uppá búskapinn hjá honum, sem var þó víst ekki stór í sniðum. Guðmundur var lærður úrsmiður og líklega ekki mikið fyrir búskapinn frakar en bróðir hans Bjarni í Hörgsholti. Ég kom oft við í Hlíð eftir að þar var komið í eyði. Þarna var torfbær með timburstöfnum og með árunum féll það allt saman og samlagaðist fósturjörðinni.
Fjallrekstrum var alltaf áð þar sem heita "Hlíðartorfur". Það er fyrir neðan og norðan bæinn í Hlíð, niðri við ármót Fossár og Dalsár. Þar týndi ég einu sinni svipunni minni silfurbúnu, sem ég erfði eftir hann afa minn Hreiðar. Fólk frá næsta rekstri fann hana en botnaði ekki í áletuninni H.G. Svo var hún geymd í Ásatúni næsta ár, en þá barst klaufaskapurinn minn einhversstaðar í tal og ég fékk hana aftur.
Í Tungufelli fengum við gjarnan kaffi í leiðinn heim frá rekstri og karlarnir sjálfsagt útí það. Þar bjuggu þá Jónína og Jón, Árna og Óla man ég líka eftir, og svo var þar Einar fáum árum eldri en ég. Þarna var ég eigninlega ekkert kunnug og kom þar ekki fyrir utan þetta. En veitingarnar voru þá rausnarlegar og mikið lagt uppúr því að við notuðum þær vel. Þegar ég man best eftir vorum við í gamla bænum, sem var með burstabæjarlagi, við langt voxdúklagt borð í lágreistri stofu, með glugga á gafli.
Á Jaðri bjuggu, fyrst þegar ég man, Guðni og Kristín og synir þeirra Davíð og Bergur. Þar ólust líka upp tvær skólasystur mínar, Lilja og Björg, dótturdætur gömlu hjónanna. Svo tók Bergur við búi ásamt konunni sinni Jónínu Kristmundsdóttur frá Kaldbak. Hún er ein af þeim sveitungum sem ég man betur en aðra, þó ég væri þarna ekki nákunnug. Hún var sérstaklega hlýleg kona, með falleg brún augu. Hún dó á besta aldri úr krabbameini. Á Jaðri komum við líka stundum við á leið heim úr rekstri, og þar var mér í fyrsta sinn boðið kaffi og koníak eins og fullorðin væri. Alltaf mun ég meta það við hann Berg. Eigi varð undan þessu vikist, og mikið rosalega hitnaði mér af því.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
25.10.2007 | 21:35
Stærðfræðitími og jarðskjálfti í skólastofunni
Níundi bekkur í stærðfræði og það brestur á með jarðskjálfta uppá tæp 3stig á Richter. Fjórtán ára krakkar þekkja jarðskjálfta best úr bíómyndum. Ýktar hamfaramyndir þar sem allt getur komið fyrir og flest lífshættulegt og hræðilegt.
Í dag var ég í stofunni þegar smávægilegur þytur kom til okkar úr vestri og gólfið skalf örstutta stund undir fótunum. En áhrifin á unglingana voru líkust því sem þau væru stödd í miðri stórborg með skýjakljúfa allt um kring og skjálftin væri uppá 7.5 stig.
Það er full þörf á að kynna fyrir börnum og unglingum hvernig á að bregðast við jarðskjálftum, en ég held að það mætti í leiðinni segja þeim að það sem þau sjá í bíómyndunum er harla ólíklegt að gerist hér.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
25.10.2007 | 20:59
Að hitta sveitungana á hrútasýningu
Á Berghyl bjuggu Jóna og Eiríkur. Hann var Jónsson og frá Þverspyrnu. Ég var ekki kunnug þarna og börnin voru öll yngri en ég, Rúna, Svanlaug, Áslaug og Jón. Þar var eitt snyrtilegasta býli sveitarinnar, ég man eftir að heyra talað um það. Bæjarstæðið er einstaklega fallegt og svo voru húsbændur til fyrirmyndar í snyrtilegri umgengni.
Ég held að ég hafi bara einu sinni komið að Berghyl og þá á hrútasýningu í fjárhúsinu. Slíkar samkomur voru ekki verri en aðrar til að hitta sveitungana. Ekki átti ég þar þó mikið erindi við menn, svona tíu til tólf ára gömul, en fékk að fara þetta með Erni bróður mínum og félaga hans, á Ferguson traktornum hans pabba. Það var "skúffa" aftaná honum sem hægt var að sitja eða standa í.
Túnsbergshjónin hétu Sigríður og Þorgeir. Eiríkur sonur þeirra var heima og Sigurgeir líka, en önnur systkini voru að mestu farin að heiman. Þó man ég vel eftir að Sigga ætti þar heima. Að Túnsbergi komum við oft og þar fengum við lánaða hesta þegar allt þraut í Hvammi. Það var ekki lengi verið að rölta þangað inneftir og stundum var komið við uppí ásnum, þar sem gimsteinarnir voru í grjótinu. Það voru nú víst bara örlitlar silfurbergsagnir, en slíkt var ekki að finna annarsstaðar í okkar umhverfi. Í Túnsbergslandi, sunnan við bæin, voru réttirnar þegar ég man fyrst og þar datt ég af baki í fyrsta sinn svo marktækt væri. Ég átti eftir að detta oft af baki.
Svo voru byggðar nýjar réttir í Hrunavellinum og þær gömlu hafa jafnast við jörðu fyrir löngu.
Í Reykjadal bjuggu Þóra og Hörður og líka hann Guðmundur, bróðir Harðar. Þar voru líka til heimilis gömlu hjónin, Pálína og Einar, en ég man eiginlega bara eftir Pálínu. Hún var fínleg og falleg gömul kona. Á þeim tíma sem við komum oftst að Reykjadal var Úlfar eini krakkinn þar. Við fórum fyrst þangað með mömmu, sem gekk þá og bar okkur eða dró á eftir sér. En svo fórum við sjálf, ríðandi á sunnudögum í heimsókn.
Á meðan við stönsuðum vorum við oft í kappreiðum, frá bragganum sem stóð úti við veg, og heim að bæ. Þetta var bærilega löng og bein braut, en við vorum stundum skömmuð fyrir að leyfa hestunum ekki að hvíla sig. Þetta var á árum Jarps og Jarpar - kannski með folald í eftirdragi. Nú vildi ég mikið til vinna að sjá þessar kappreiðar.
Að Þórarinsstöðum kom ég aldrei og hef ekki komið þar enn. Ögmundur var bóndi þar og Jóa systir hans húsmóðir. Hjá þeim ólst upp bróðurdóttir(held ég megi segja) Steinunn og hún var með mér í skólanum. Það var nú allt sem ég hafði af því heimili að segja.
Ekki minnist ég þess heldur að hafa komið að Laugum. Þar bjuggu bræðurnir Einar og Maggi og síðar líka Guðrún, kona Einars. Þar átti líka heima Marel Jónsson, en hann varð ráðsmaður þarna eftir að bræðurnir misstu föður sinn. Eyþór, sem bjó á Kaldbak og Ingimundur voru líka bræður þeirra. Laugabræður voru góðir söngmenn og vinsælir öðlingar. Ég þekkti þá af að sitja á kirkjubekknum í Hruna og horfa og hlusta á kirkjukórinn.
Á Reykjabóli bjuggu Magnús Einarsson frá Reykjadal og konan hans hét Sigrún. Hún var systir Marels á Laugum og þau voru frá Tungufelli. Sigrún og Magnús áttu tvíbura, Hlöðver og Sverri. Þeir voru tveimur árum eldri en ég og ég vissi hverjir þeir voru svona frá skólanum og af samkomum, en þekkti þarna annars ekkert. Það var held ég búið þarna einhverjum garðyrkjubúskap, en alltaf frekar smátt. Þegar strákarnir stálpuðust hurfu þau öll úr sveitinni.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.10.2007 | 20:08
Nú verð ég að blogga í "nútíðinni"
Það er svo margt undarlegt í henni veröld. Prestarnir þora ekki að segja nei, en geta heldur ekki fengið sig til að segja já.
Það má ekki lesa "Tíu litla negrastráka" fyrir börnin. Hvernig væri að útskýra bara fyrir þeim sögu þessarar bókar og hvernig íslenskt þjóðfélag hefur breytst?
Í útlöndum eru íslenskar konur auglýstar sem lauslátar og drykkfelldar. Kannski er ekki von á öðru datt mér í hug í dag þegar ég fór í laugina.
Á sama tíma kom þar stór hópur af ungu fólki frá Bretlandi og ég var samtímis allmörgum ungum stúlkum í sturtunni. Mér kæmi ekki á óvart þó þær hefðu einhver orð um framferði mitt þegar heim kemur. Ég sýndi þarna í sturtunni örugglega fádæma lauslætislega og jafnvel bara klámfengna framkomu að þeirra mati. Ég óð inn í klefann allsber og óvarin ofan og neðan, snerist svo um sjálfa mig undir sturtunni góða stund, strjúkandi sápunni þvers og kruss án þess að skammast mín hið minnsta.
Á meðan þær, með aðra hönd um brjóst og hina neðar læddust að sturtunni og stóðu þar svo hengjandi haus og sneru nefi að vegg á meðan sturtukonan kallaði hvað eftir annað "sóp, sóp, sóp". Í byrjun kostaði reyndar fjas að fá þær til að fara sundfatalausar í sturtuna. Nei mig skyldi ekki undra þó þær lýstu lauslætislegu framferði mínu þegar heim er komið. En þær geta aldrei haldið því fram að ég sé drykkfelld líka, ég var algerlega edrú. Labbað bara heim af því ég var að koma úr vinnunni, og þar er ég aldrei á bíl.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
24.10.2007 | 20:51
Skrímslið í Austurkróknum
Nú liggur leiðin upp í Austurkrók. Þá var farið um hlaðið í Hruna og svo lá vegurinn til norðurs inn á milli ásanna.
Fyrst var komið að Þverspyrnu. Þar bjuggu Guðlaug og Jón og börnin sem enn voru heima við hétu Ásta, Gunna, Rúna, Sigurjón og Valgeir. Sennilega Stefán líka og Sigga með annan fótinn. Annars voru þessar systur í vinnumennsku víða í sveitinni og ég man eftir þeim bæði í Hvammi og Gröf. Foreldrar mínir höfðu, kannski þess vegna, kynnst þessari fjölskyldu og við komum stundum að Þverspyrnu. Þar voru góðar viðtökur. Við fórum líka gjarnan í berjamó í Austurkrókinn.
Á milli Þverspyrnu og Hörgsholts þurfti að fara af baki til að opna hlið (ég fór þetta oftast ríðandi) og frá þessu hliði sást nokkuð stórt vatn framar í lægðinni. Í þessu vatni sáum við krakkarnir oftar en einu sinni skrímsli. Aldrei þorðum við að nálgast vatnið til að kanna þetta betur, en við fórum þarna varla um án þess að sjá þetta ferlíki. Yfirleitt sáum við á því tvö höfuð og svo hlykkjaðist búkurinn þar fyrir aftan og mátti ekki miklu muna að það næði enda á milli í vatninu. Einhverjum árum seinna sáum við svo að þetta var álftapar sem synti eftir vatninu með röstina á eftir sér. Þau hafa líklega haft sumardvöl á þessu vatni allan sinn búskap.
Þegar ég kom fyrst að Hörgsholti var Bjarni þar líklega orðinn einn. Konan hans - Jóhanna - hafði verið sykursjúk og lést í mínu minni, en ég man ekki eftir að hafa séð hana. Það sem ég man af fyrstu komu minni á þennan bæ var að Eiríkur á Grafarbakka skoðaði myndir á vegg og spurði svo Bjarna "hvers vegna var hún Jóhanna svona feit"? Ég hef víst skammast mín voðalega fyrir þessa forvitni og því man ég þetta alltaf.
Ekki man ég hvort við komum í þetta sinn gangandi eða ríðandi, en við lögðum á þessum árum sveitina að fótum okkar eða "hófum", í bókstaflegri merkingu. Fórum oft svona sex eða átta saman, ótrúlegustu vegalengdir og víluðum ekki fyrir okkur að koma á bæi og þiggja veitingar, þó við þekktum þar ekki nokkurn mann nema af afspurn. Jóhanna og Bjarni áttu einn son og man ég vel eftir honum. Bjarni var skáld og fræðimaður, miklu fremur en bóndi. Hann gaf út Hreppamanninn sem var lítið innansveitartímarit, með kveðskap eftir hann og svo ýmsu öðru efni.
Á Kaldbak bjuggu Eyþór og Guðborg þegar ég fyrst man að hafa komið þar, en ég man líka eftir að hafa heyrt um Kristmund á Kaldbak og öll hans börn voru alltaf kennd við bæinn. Kannski kom ég til þeirra einhverntíman fyrir mitt minni?
Aðeins man ég eftir að hafa komið þarna inn, en lítið þó. En örugglega fór ég þar oftar um, því ég man eftir að hafa komið að Kluftum á meðan Gestur og Lína bjuggu þar með börni þrjú, Jónínu, Garðar og Billa. Gestur var bróðir Kristmundar á Kaldbak.
Ég kom líka að Kluftum eftir að þau voru farin og allt komið í eyði. Það var vinsæll útreiðartúr á sunnudögum að fara upp Austurkrók, að Kluftum og síðan yfir mýrar og fen vestur að Litlu Laxá. Síðan niður með henni austan við Berghylsfjall, framhjá eyðibýlinu Hildarseli, sem var þá reyndar löngu horfið, nema hvað mótaði fyrir svolitlum tóftum. Þarna var svo komið niður að Berghyl. Ég fór þetta síðast með börnin mín sem ég hafði gefið að borða í Flúðaskóla veturinn 1963-4. Ég lofaði þeim svona ferð einhvertíman um veturinn, kannski yfir grjónagrautnum á laugardegi, og mér tókst að standa við það.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.10.2007 | 20:20
Þegar þvotturinn var þveginn í hvernum
Á Sólheimum, austur við Stóru Laxá bjuggu Billi og Lína. Dóttir þeirra hún Erla var þar líka heima, en systir hennar, Gunna far farin að heiman og ég kynntist henni ekki. Ég kom þarna aldrei og var orðin nokkuð stór þegar ég sá þar fyrst heim.
En Lína var samt á meðal þeirra sveitunga sem mér þótti vænst um. Hún "kom á hverinn" eins og svo margar aðrar konur á þessum tíma. Kom með þvottinn sinn til að þvo hann í hverahólmanum heima. Hún kom þá ríðandi og teymdi vagnhest. Vagninn var fullur af þvotti og það tók allan daginn að ljúka verkinu. Á meðan þvotturinn sauð í hvernum bauð Lína mér í reiðtúr. Varla var ég eldri en fjögurra- fimm ára þegar hún fór að taka mig með sér - á vagnhestinum- upp á Mela, og stundum alla leið upp að Áslæk.
Einu sinni man ég að ég lenti í vandræðum í svona ferð. Ég var auðvitað berbakt og í stigvélum. Lína fór nokkuð greitt og það fannst mér yfirleitt ekki leiðinlegt. En í þetta sinn var ég alveg að missa stígvélin af mér en ekki vildi ég kalla í Línu til að biðja hana að hægja á. Neyddist þó til þess á endanum þegar annað stígvélið datt af. Hún sneri við, snaraðist af baki, fussaði, tók stígvélið upp og tróð því á fótinn. Dreif sig svo á bak aftur og sló í. Svona var Lína - ekkert væl og engan rolugang.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
23.10.2007 | 19:57
Nútímablogg
OMG! Ég hef alveg gleymt þeim sem ekki þekkja þúfurnar í sveitinni. Þessum sem vilja vita hvað amma er að gera svona á venjulegum dögum - fyrirgefiði.
Það er orðið næstum því aldimmt á morgnana þegar ég labba í skólann. Ég fer alltaf á sama tíma og hitti alltaf sama fólkið á leiðinni. Eða - ég hitti eiginlega ekkert fólk. Bara manninn sem keyrir húsasmiðjubílinn, hann er annaðhvort þremur metrum fyrir framan mig eða aftan útúr Víðivöllunum. Undanfarið hefur rignt mikið, en sjaldan þó eins og í gær á heimleiðinni. Samt var ég ekkert blaut að ráði, bara í gegn frá lærum og niðurúr.
Á fimmtudaginn fór ég í laugina í leiðinni heim. Þurrkaði mér svo og fór í föt. Ég hefði betur sleppt því og hlaupið bara í sundbolnum. Svo blaut var ég þegar heim kom.
Okkur gengur alveg bærilega í níunda bekk. Við erum núna í nokkrum valgreinum og þar á meðal matreiðslu. Í dag var rosalega góður matur hjá okkur og sá fátíði atburður gerðist að allir sátu þegjandi og borðuðu matinn sinn. Allir þegjandi skiljiði!
Við skruppum aðeins í bæinn á laugardag. Ég var í heldur undarlegum erindum í þetta sinn. Eins og kannski einhverjir vita þá er ég afkomandi hennar Rannveigar sem var systir Jónasar Hallgrímssonar. Nú ætlar þessi ættbálkur að koma saman til að minnast 200 ára afmælis Jónasar og vekja athygli á, að þó hann ætti ekki börn sjálfur, er til fólk á Íslandi í dag sem getur rakið ættir sínar í næsta nágrenni við hann. Ég var sem sagt kölluð á undirbúningsfund og sá þar fólk sem ég hafði ekki grun um að væri skylt mér. Það var svolítið skondið.
Við fórum svo í afmælið hennar Júlíu Katrínar þegar við komum til baka og það tókst svo vel að það var enginn kvöldmatur þann daginn. Svo kom fjölskyldan af Hraunteig austur á sunnudag og við fórum með þeim niður í fjöru um leið og þau fóru aftur heim. Svo kíktum við aðeins til fjölskyldunnar í Sandvík um kvöldið. Knnski finn ég myndir af nokkrum barnabörnum til að skreyta þetta "nútímablogg". Svo sný ég mér aftur að fortíðinni. Ég fann mynd af öllum - Urði og Unu í fjörunni, Ívari í heimsókn og Helgu líka. Júlía Katrín að hjálpa til að ganga frá í Mýrinni og Dýrleif að fara heim eftir að hafa litið eftir ömmu og afa.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
22.10.2007 | 22:00
18 - A7
Myndirnar sýna allt sem talað er um hér á undan. Getraun - hvaða sveit er þetta?
Bara bull - það vita allir sem lesa.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Um bloggið
Hér slettir Helga skyrinu...
Tenglar
Barnabörnin
Dritarar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (28.7.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 6
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 5
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar