22.4.2008 | 21:24
Útburður í austurbænum
Ég var að bera út, söngskrána fyrir Karlakór Selfoss. Á hverju vori þegar tónleikar nálgast er söngskránni dreift til allra íbúa bæjarins og það er nú að verða nokkuð viðamikið verkefni, má nærri segja að þurfi að ganga um Sandvíkurhreppinn og Hraungerðis og svo Eyrarbakka og Stokkseyri til viðbótar því sem áður var.
En við erum mörg og spræk svo þetta gengur ljómandi vel. Í þetta sinn er söngskráin skemmtilegri en stundum áður, það eru í henni myndir frá kórstarfinu - fullt af þeim. Og svo tveir kaflar úr ferðasögum. Ég skrifaði þá nú reyndar sjálf. Þetta eru bara bútar úr lengri sögum, en ég skrifaði fyrir einhverjum árum sögur fjörutíu vorferða kórsins, og setti í möppur með myndum. Það verður hægt að grípa þar upp kafla og kafla í nokkrar söngskrár framtíðarinnar.
En það var gangan um bæinn sem ég ætlaði að tala um. Ég ber út í hverfið hér fyrir vestan mig, næst elsta hluta austurbæjarins. Fjörutíu ára gamalt hverfi eða svo.
Nú eru upprunalegu íbúarnir víða farnir úr húsunum. Sumir í ferðina löngu, aðrir á elliheimili eða í Fosslandið. Það er víða farið. En það kemur fólk í staðinn. Ungt fólk, ókunnugt fólk, fólk sem enginn kynnist jafnvel fyrr en það er farið aftur. Það er svo mikið um það núna, fólk sem kemur og fer en enginn veit hvaðan það kom eða hvert það fer, við hittum það aldrei.
Og húsin og lóðirnar gjalda fyrir þetta eilífa flakk. Engum dettur í hug að fara að mála hús eða gera við grindverk þegar þar á ekki að verða nein framtíð. Þess vegna eru nú í hverfinu mörg ómáluð hús og brotin grindverk. Skáldaðar stéttar og úr sér vaxinn trjágróður er líka áberandi. Jafnvel sinuþaktir grasblettir af því að ekkert var slegið í fyrra. Í þessu líka fína heyskaparveðri. Sums staðar hefur verið byrjað á einhverjum framkvæmdum fyrir löngu, en situr svo við sama í einhver ár.
En auðvitað er innanum fólk sem hefur alltaf verið hér og líka fólk sem hefur komið og ætlar að vera. Það snyrtir garðana sína og hugsar vel um húsin og það hefur víða núna, á síðustu vikum fellt alveg býsn af stórum trjám svo nú sér aftur til sólar þegar hún sýnir sig.
Ég tók í kvöld myndir af því sem ég sá fallegt, snyrilegt og skemmtilegt. Miklu betra að taka eftir því heldur en hinu sem ekki er gott.
Ég sá flottan nýjan brunahana, ég sá marga stubba og leifar af stórum trjám, ég sá lítil blóm sem eru að koma upp úr moldinni. Jafnvel blóm sem áttu bara að eiga eitt líf, í fyrrasumar, en eru nú að biðja um að fá eitt sumar enn. Svo sá ég regndropa á steini úti á bletti, svei mér þá, það voru dropar, samt fann ég enga rigningu.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
22.4.2008 | 17:24
Það vantar rigningu
Og ég er orðin verulega áhyggjufull vegna þess. Í gær fór ég út á bílnum og þá varð ég vör við nokkra dropa á rúðunni, varla samt að þyrfti að ræsa þurrku. Göturnar voru jafn þurrar sem fyrr og ekkert varð úr þessu. Ég segi og skrifa, að það hefur ekki rignt hér síðan um veturnætur, nú var ég svöl, veit hreint ekki nákvæmlega hvenær þær eru.
En alla vega það hefur bara snjóað ef eitthvað hefur fallið af himnum ofan svo langt aftur sem mitt veðurminni nær. Hvað er í gangi?
![]() |
Sinueldur á tveimur stöðum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
16.4.2008 | 18:21
Sveitamennskan uppmáluð!
Og þess vegna spyr ég: Hvar er "Laugardalshverfið"?
Það virðist vera á umráðasvæði reykjavíkurlöggunnar, annars hefði mér dottið í hug eitthvað í grennd við Laugarvatn.
![]() |
Fíkniefni fundust við húsleit í Laugardalshverfi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
14.4.2008 | 21:30
Þá var íslenska krónan eftirsóttur gjaldmiðill og Interpool lýsti eftir mér - framh. - lok.
Hann lokaði dyrunum og bauð mér sæti við borð. Settist svo á móti mér og hafði ritvél fyrir framan sig.
Svo fór hann að spyrja mig: Hvernig kynntist ég vini mínum Anthony? Hafði ég hitt hann oftar? Hvenær komum við heim? Og allt mögulegt vildi hann vita. En honum fannst engin ástæða til að segja mér hvers vegna hann var að forvitnast þetta.
Ég sagði honum söguna alla, eins og ég hef skrifað hér á undan. Dró ekkert undan sem mér fannst skipta máli, þó mér fyndist varla að nokkuð af þessu gæti skipt svo miklu máli að þyrfti að eltast við það alla leið úr Reykjavík.
Hann hamraði á ritvélina og skráði hvert orð skilmerkilega og skaut inn einstaka spurningu. Að síðustu vildi hann vita hvort einhver myndi geta staðfest það sem ég hafði sagt honum og nefndi ég þá hjónin sem komu og settust hjá okkur.
Svo las hann fyrir mig allt sem hann hafði skrifað og ég kvittaði undir að rétt væri.
Nú loksins þótti honum ástæða til að segja mér hvers vegna hann hafði svona mikinn áhuga á mér og vinum mínum.
Ransóknarlögregla ríkisins hafði fengið erindi frá INTERPOOL, þar sem beðið var um að þeir hefðu uppi á manneskju sem héti Helga Einarsdóttir og byggi á Selfossi.
Vinur minn Anthony hafði verið tekinn fastur í London, þar sem hann hafði gengið á milli verslana og hótela og selt gamla græna verðlausa hundrað krónu seðla frá Íslandi sem sænskar krónur, og var víst ekki smátækur.
Eina vísbendingin sem benti til þess hvar hann gæti hafa fengið seðlana var miði í vasa - með nafninu mínu og heimilisfangi. Þar lá nú við að Danir lægju í því!
Ég gaf nú lögreglumanninum allt dótið úr eldhússkápnum og sá ekki eftir því. Hann var mest hrifinn af myndinni og það fannst mér dáliðtið merkilegt. Hann var líka ánægður með söguna sem ég hafði sagt honum og taldi víst enga ástæðu til að efast. Að sögulaunum sagði hann að ég skyldi halda pundunum 25, ég gæti notað þau í næstu ferð. Þegar ég svo yfirgaf löggustöðina vinkaði ég Hergeiri löggu heldur hreykin. Hann horfði á eftir mér hugsandi, og hafði örugglega aldrei komist í kast við INTERPOOL.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
14.4.2008 | 21:00
Þá var íslenska krónan eftirsóttur gjaldmiðill og Interpool lýsti eftir mér - framh.
Þegar heim var komið tók við daglegt amstur, gjafir og peninga frá vini mínum Anthony lagði eg upp í eldhússkáp og ætlaði eð taka með mér í næstu ferð til höfuðborgarinnar.
Þangað var þó ekki farið daglega um hábjargræðistímann og það liðu þrjár vikur eða svo.
Þá hringdi síminn einn daginn og ég svaraði. Karlmaður kynnti sig og kvaðst hringja fyrir hönd Ransóknarlögreglu ríkisins. Hann spurði eftir Helgu Einarsdóttur. Ég sagðist vera sú sem hann leitaði að. Þá spurði hann hvort ég þekkti mann sem héti Anthony Jones? Jú ég hélt nú það, hann þekkti ég alveg. "Kynntist honum útí London um daginn, og ég á fullan eldhússkáp af dóti frá honum".
"Jæja væna mín", sagði ransóknarlögreglumaður ríkisins, getur þú hitt mig á lögreglustöðinni á Selfossi á morgun klukkan eitt? "Og taktu með þér dótið". Jú ég hélt að það væri nú í lagi, en fékk engar frekari skýringar.
Þetta símtal olli mér töluverðum heilabrotum það sem eftir var dagsins. Það vafðist fyrir mér hvernig Ransóknarlögregla ríkisins hefði fengið veður af þessum skyndikunningja mínum? Gat verið að hann væri kominn til landsins og væri að reyna að hafa uppá mér? Ekki leist mér á það.
Næsta dag tók ég allt góssið úr eldhússkápnum, pund og kínaseðla, mynd og nafnspjald og labbaði út á löggustöð í tæka tíð. Á þessum tíma var löggustöðin við Hrísholt, þar sem AA er núna. Þetta var fyrir mööörgum árum. Þá flaug að mér að þetta hlyti að vera meiriháttar mál, ransóknarlögreglumaður ríkisins gerir sér varla ferð út á land fyrir einhverja smámuni? Hér eru ágætir ransóknarlögreglumenn sem ættu að geta séð um svona nokkuð?
Einn þeirra tók á móti mér og var ekki laust við að á honum væri kyndugur svipur. Kona úr næstu götu kölluð til yfirheyrslu hjá manni sem kom alla leið úr Reykjavík? Frá Ransóknarlögreglu ríkisins? Þessa konu hafði löggan þekkt mestalla sína löggutíð og átti ekki von á neinu svona mögnuðu. Ég fann svolítið til mín þegar hann vísaði mér í yfirheyrsluherbargið, þar sem þessi merkismaður beið eftir mér. Hann var svo merkilegur að hann var ekki einu sinni í búning. Þetta var "TOP SEECRET"!
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
14.4.2008 | 20:14
Þá var íslenska krónan eftirsóttur gjaldmiðill og Interpool lýsti eftir mér - framh.
-- Í möppunni var hann með sýnishorn af seðlum, allar mögulegar gerðir frá fjöldamörgum löndum. Það vildi svo til að þarna áttum við sameiginlegt áhugamál og ég fékk að skoða möppuna vel og vandlega.
Enga sá ég þar íslenska seðla og hafði orð á því. Hann sagðist eiga eitthvert lítilræði en ekki hafa það með sér. Svo spurði hann hvort ég ætti nokkuð sem ég vildi skipta á og það vildi svo til að ég var með í veskinu einn gamlan tíu króna seðil. Þennan fjólubláa, heldur lítið spennandi seðill, svona í útliti, og hafði einhverju fyrr verið skipt út fyrir kringlóttan pening.
Þennan tíkall fékk Anthony (við vorum orðin nokkuð náin) og ég í staðinn tvo kínverska seðla og var bara heldur ánægð með það. Hafði þó ekki hugmynd um verðgildi þeirra seðla.
Hann fór nú að spyrja um myntbreytinguna sem hafði verið gerð árið áður hér á Íslandi. Í því sambandi var hann helst að hugsa um gömlu grænu hundrað króna seðlana, hvort verið gæti að enn væri hægt að kaupa eitthvað af þeim? Ef ekki í bönkum, þá kannski í safnarabúðum? Hann var að velta þessu fyrir sér útaf búðinni, gæti kannski selt eitthvað af svona seðlum þar. Ég taldi ekki útilokað að enn væri hægt að finna græna hundraðkalla og bauðst til að kanna málið fyrir hann.
Nú varð hann glaður. Hann lét mig hafa nafnið sitt og heimilisfang á blaði og 25.00 pund til að eyða í peningaverslunum á Íslandi.
Það voru komin þarna hjón sem tilheyrðu mínum hópi og sátu þau hjá okkur og fylgdust með samræðum og áætlanagerð án þess að leggja mikið til málanna.
Að endingu gaf hann mér mynd af sér, sem tekin var af götuljósmyndara, og á annarri öxlinni sat grettinn apaköttur. Þótti mér álitamál hvor væri fríðari, apinn eða Anthony "mæ frend", fannst þó eiginlega ókurteisi að afþakka myndina. Ég stakk henni í töskuna mína ásamt pundunum 25, heimilisfanginu og kínaseðlunum.
Nú fór hann að tygja sig til brottfarar, en hafði svo orð á því hvort hann gæti fengið nafn og heimilisfang hjá mér? Þótti mér það ekki nema sjálfsagt þar sem ég var með fulla vasa fjár frá honum. Ég skrifaði nafn og póstáritun á miða, sem hann stakk í vasann, svo pakkaði hann saman möppunni, kvaddi með vinsemd og fór.
Segir nú ekki meir af þessum degi eða Lundúnadvölinni yfirleitt, við fórum heim einum eða tveimur dögum seinna. --- framh. ---
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
14.4.2008 | 16:54
Þetta hélt ég!
![]() |
Fingrafarið kom upp um þjófinn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Já það var nú þá. Nú er krónan hins vegar sögð handónýt og Interpool lætur alveg eiga sig að lýsa eftir bófum sem setjast að á Íslandi. Við erum fullgóð til að geyma þá.
Þetta verður að vera framhaldssaga, hún er svo löng. Og þeir sem þekkja söguþráðinn í fyrstu fjórum línum sleppa þvi bara að lesa.
Sumarið 1981 fórum við hjónin í utanlandsferð með Karlakór Selfoss. Það var farið til Englands og Wales og í ferðarlok dvalið nokkra daga í London, þar sem kórfélagar og konur kynntu sér lífið borginni.
Þarna bjuggum við á notalegu hóteli nærri miðborginni, eyddum dögunum í skoðunarferðum, búðarápi og safnaskoðun. Við fórum líka eitt kvöldið að sjá Evitu, sem seint mun gleymast.
Það kom að því einhvern af seinni dögunum að eiginmaðurinn, sem var í ferðanefnd þurfti að bregða sér með fararstjóranum á fund flugfélagsmanna, vegna einhverra breytinga á fluginu. Ég beið bara á hótelinu á meðan.
Ekki nennti ég að hanga ein uppi á herbergi og flestir aðrir voru einhversstaðar úti í bæ, auðvitað í búðunum. Ég kom mér fyrir í þægilegum stól í lobbýinu og beið þar. Þarna var líka nóg að sjá og heyra af fólki frá öllum heimshornum. Að horfa á fólk er það skemmtilegasta sem maður getur gert í útlöndum - finnst mér, og það kostar ekki neitt.
Ekki hafði ég lengi setið þegar ég heyrði kallað, frá afgreiðslunni, og fararstjóri íslenska hópsins beðinn að koma þangað væri hann nálægur. Ég vissi að hann var úti með mínum manni, en sinnti ekki kallinu. Svo var aftur kallað - og enn.
Ég sat þarna og horfði á stúlkuna sem talaði í kallkerfið og var nú orðin nokkuð óróleg. Ég er oftast alveg til í að hafa mig í frammi ef þess þarf og mér fannst líka allt í lagi að láta hana vita að ég sæti þarna og skildi alveg það sem hún var að segja.
Ég stóð upp og gekk að borðinu og sagði henni að fararstjórinn okkar væri útí bæ en kæmi bráðum, ég skyldi láta hann vita af henni. Hún sagði bara takk(á ensku).
Ég settist aftur og tók upp þráðinn við mína skemmtilegu vettvangsransókn.
Þetta hefur lengi verið ein af mínum veiku hliðum, allt að því óhóflegur áhugi á því sem fram fer í kringum mig. Forvitni, segja sumir, en aðrir reyna að gera gott úr og kalla það fróðleiksfýsn.
Litlu seinna sé ég mann koma gangandi í áttina til mín, og sýndist eiga við mig erindi. Þetta var hávaxinn maður, heldur luralega vaxinn og óttalega óheppinn í andliti. Ekki sá ég þó ástæðu til að leggja á flótta, engan skal dæma eftir útlitinu einu og við vorum þarna í miðju fjölförnu anddyrinu.
Hann heilsaði kurteislega, sagðist heita Anthony Jones og spurði svo hvort ég tilheyrði íslenska hópnum sem byggi á hótelinu? Ekki sá ég ástæðu til að neita því og hann spurði hvort hann mætti tylla sé hjá mér? Hann langaði til að spjalla um eitt og annað sem tengdist Íslandi og þó ég væri ekki hraðmælsk á enska tungu taldi ég mér fært að svara, alla vega með nei og já, ef hann vildi eitthvað spyrja um land og þjóð, ég hafði svo sem ekkert annað að gera.
Hann fór nú að spyrja um ferðalagið okkar og svo um ýmislegt heima á Íslandi og virtist ekki alveg ókunnugur því landi, en hafði þó ekki komið þangað. Okkur gekk bara vel samræðan. Hann var með einhverskonar skjalamöppu meðferðis og sagði eftir nokkra stund að hann væri safnari og ræki ásamt öðrum eihverskonar safnaraverslun. Nú var ég orðin áhugasöm þó karlinn væri ekki mjög aðlaðandi. "Söfnun" er orð sem ég skil og hef margoft fallið fyrir. ---- framh -------
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
11.4.2008 | 21:51
Orðasmíði í Kastljósi?
Á hverjum dagi heyrir maður og sér einhverja snilldartakta hjá fjölmiðlafólkinu. Stjörnu dagsins í dag fær Helgi Seljan fréttamaður. Ég held nefnilega, og er eiginlega viss um, að hann sagði dálítið skrýtið í Kastljósinu í kvöld. Ég hlustaði á það tvisvar.
Hann var að tala við tvo einstaklinga um eitt og annað sem gerðist í vikunni og þar á meðal vandamálin í umferðinni. Hann talaði um aðgerðir eða aðgerðaleysi ráðherra og minntist þess að núverandi ráðherra hefði haft ákvenar skoðanir á málum fyrir ári síðan en nú væri hljóðið í honum allt annað. "Það er komið allt annað hljóð í skrokkinn", sagði Helgi? Er það ekki eitthvert snilldarlegt nýyrði, "skrokkinn"? Ég hef alltaf heyrt talað um, og séð fyrir mér, "strokk" í þessu sambandi. En kannski er talað svona fyrir austan, hvað veit ég?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
10.4.2008 | 17:25
Ég "hendi" grjóti hér inn
Eins og það er nú líka ljótt. Í mínum uppvexti var reyndar fátt verra en að kasta grjóti, enda varla von á öðru þar sem ég var að nokkru leyti alin upp í gróðurhúsi.
En hér birtist GRJÓTIÐ mitt. Ég veit vel að ég hefði getað verið frumlegri, en þetta grjót er búið að veltast hér um húsið í mörg ár án þess að finna sér tilgang. Rétt að nota það og sjá svo hvað þið hafið fram að færa. Fyrir kvöld þess 19 eigið þið að skila mynd hér inn eða senda mér í pósti. Öllum velkomið að vera með, dómari segir svo sitt álit og verðlaunin eru að velja næsta þema. Svo einfalt er það nú.
Um bloggið
Hér slettir Helga skyrinu...
Tenglar
Barnabörnin
Dritarar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.7.): 0
- Sl. sólarhring: 2
- Sl. viku: 6
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 6
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar