Dægurmál

Ég fór að skoða þetta betur, hvernig gera "bloggarar"? Ég leit aðeins í kringum  mig á yfirlitssíðunni.... hverjir eru að blogga og um hvað er skrifað? Því er fljótsvarað.... næstum því eingöngu karlar, ríflega miðaldra karlar. Og þeir skrifa um það sem hæst ber í fréttum fjölmiðlanna,hugmyndaauðgin er nú ekki meiri en svo. Að vísu framreiða þeir skoðanir sínar með ólíkum hætti, sem er ágætt og yfirleitt finnst mér bara gott að þeir skuli skrifa. Það er nefnilega nokkuð stórt mál að almenningur útí bæ nýti þau tækifæri sem bjóðast til að skrifa, á íslensku, eitthvað sem þeim/ okkur liggur á hjarta. Það hreinsar hugann og veitir sálarró. Bara gott að sjá þarna nokkra af körlunum og vita að það er svona sem þeir fá útrás, þarf ekki að hafa áhyggjur af þeim. Svo ég ákvað að hella mér bara útí þetta,svellköld þó ég verði ein kvenna á yfirlitssíðunni sem sýnir áhugafólk um "Dægurmál". Hvar eru annars konurnar?

Komin inná eigið skriftasvæði leit ég í kringum mig og reyndi að rifja upp hvernig hér er í pottinn búið. Sá strax við fyrsta slag að letrið var alltof smátt, kannski var það nóg einu sinni, en ekki núna. Ég gat með góðu móti stækkað það. Eiginlega er hér allt í boði sem með þarf, meira að segja bros og fýlukarlar, sem ég held að hafi ekki verið hér fyrr.  Hvort ég get munað hvernig ég fann og setti inn myndirnar verður að vera seinni tíma verkefnicool. Sko,þetta gat ég. En þá er bara að byrja: "Dægurmál"..... það ætti þá að vera það sem gerðist í dag, eða kannski það sem ég hugsaði í dag mætti líka nota? Ég gerði svo sem ekkert í dag. Jú auðvitað, eins og alltaf fór ég í laugina kl. 7.30 og var komin heim um kl.10.00, það er fastur liður alla daga og syndi þar samviskusamlega í hálftíma... jahh eða alla vega er ofaní lauginni. Það má líka hlaupa eða ganga eða gera æfingar, nú eða þá kannski spjalla smá ef einhver skemmtilegur er að "hvíla" á brautarenda. Nú er farið að birta á morgnana, við samsundkonur.... ágætt orð.... fylgjumst grannt með því þegar sólin fer að lýsa upp himinninn yfir grenitrjánum stóru fyrir sunnan vegg. Þegar sæmilega bjart er yfir sjáum við góða skímu þar klukkan níu. Talandi um grenitré, haldiði ekki að Þingvallanefnd heimti nú að öll grenitrén sem hafa staðið þar nærri sem Valhöll var áður, skuli söguð niður og eytt. Þar skal ekkert barrtré sjást vegna þess að þau eru líklega upp komin af fræi sem var ræktað erlendis. Hvers konar innflytjendapólitík er það? Var ekki landið "skógi vaxið á milli fjalls og fjöru"löngu áður en forfeður Þingvallanefndar létu sér detta í hug að sækja um landvistarleyfi á Íslandi. Löngu áður en Ísland fékk nafn meira að segja? Þetta eru svo ekki einu grenitrén sem þeir verða að eyða ef verkið á að sýnast trúverðugt og svara kröfunni um "íslenskan gróður á Íslandi". Það eru líka stór tré við hornið á Þingvallabænum sem gera þar hlýlegt og skjólgott í suðaustan roki og janfvel líka aust-suð-aust. Það hlýtur að þurfa að farga þeim líka?

En, já... ég fór líka í gufuna, blautgufuna, en mér fannst það ekkert rosalega gott, fullheitt fyrir minn smekk.

En svo, heimkomin.. fyrir utan daglegt amstur í heimilisstörfum þá var ég lengst af deginum að skrifa.  Það var nú rigning og meira að segja búið að spá roki, sem mér fannst nú reyndar aldrei koma.   Já, ég var að skrifa Bændavísur.Fékk uppí hendurnar bókarræksni með handskrifuðum vísum um alla bændur í Hrunamannahreppi. Ekki bara einu sinni heldur þrisvar sinnum hefur vísnasmiður verið fenginn til að leita uppi alla bændur í svitinni og fanga þá í vísu. Fyrst 1865 svo 1900 og síðast 1907. Sumt er þetta skrifað á svo fornu máli að ég verð að "googla" til að finna skýringu á orðum og orðasamböndum. Það gengur þokkalega og stundum fylgir skýringunni hvaðan orðið sé komið og þá er það stundum nokkuð langsótt. Njála er nefnd og aðrar fornsögur líka. En ég skal ljúka verkinu og færa þetta allt á prent, nota fornmálið samviskusamlega og síðan kem ég skruddunni í geymslu á skjalasafni. Svoleiðis á maður að gera. 

Nú sé ég að þetta er að verða alltof langt, það er gallinn við mig, ég gleymi alltaf að hætta fyrr en of seint. best ég setji bara eina vísu hér í botninn og segi svo gott í kvöld.  ath.það er ákaflega frjálslega farið með stafina þarna, en ég læt það standa sem skrifað er. 

Berghilnum þó búi á

bóndinn Símon Guðmunds arfi.

Marga reynir maður sá

mæðu þunga bús í starfi.    Góða nótt.wink


Endurfundur!

Mikið varð ég glöð núna, bloggið mitt virkar eins og ég hafi aldrei skilið við það. Kannski væri rétt að gera eitthvað í málinu.... hvernig var það nú aftur sem maður "bloggaði"?


Gleymdur heimur

Þar sem mér tókst að grafa upp aðgangsorðið mitt í blogginu held ég að mér sé ætlað að nýta það aðeins betur. Ég var reyndar búin að setja hér inn flest það sem mér datt í hug... fram að þeim tíma sem ég ánetjaðist fésbókinni, eftir fésbók virtist ekki ástæða til að lifa tvöföldu lífi á prenti. En ég er nú með þeim ósköpum fædd að hugmyndirnar hætta ekkert að verða til og sumar eru bara betur til þess fallnar að eiga heima hér. það kom líka fyrir á þeim tíma að ég fór að rífast yfir pólitík og blaðaskrifum, sem ég auðvitað hef ekkert vit til að rífast um. En samt.. það er ágætt að hafa einhvern hálfleyndan stað til að láta vaða og rífast, jafnvel útaf engu. Af því einhvernvegin er það svo að hér finnst mér ég vera ein í heiminum og geti sagt nærri því hvað sem er... sem auðvitað er mesta vitleysa, það veit ég vel. Ég verð að rifja ýmislegt upp ætli ég að dvelja hér eitthvað að ráði. Búin að gleyma hvernig ég næ í myndir til að setja hingað, blogg... og bara allt er ónýtt ef ekki eru myndir öðru hvoru. Og svo þetta með blaðagreinarnar, hvar fann ég þær til að rífast yfir og gat vísað í þær hérna? Jú það er rétt að láta vaða, ég sé að heilanum veitir ekkert af því að rifja þetta allt saman upp. Gleðilega páska :-)   Naunaunau.. hér þyðir ekkert að búa til broskalla, þetta er blogg en ekki fés. Og átti maður svo að skrifa undir? man það ekki kkv.HRE Hohoho... gat látið mynd.DSCF5386


Ég er ekki búin að gleyma

Aðgangsorð, lykilorð, í vinnunni, á fésinu, blogginu, bankanum og hvar sem er. Það er töluverð áskorun að muna öll þessi orð og tölur og vera alveg viss um að rétt sé sett á hverjum stað.

Held ég fari bara að blogga aftur.. hef verið léleg í því allt of lengi.

Reyndar er ég núna að gera tilraun, held jafnvel að ég geti snúið á fésið og laumað hér inn mynd af bræðrum mínum sem báðir áttu afmæli í gær. Og það sem meira er, þeir eru jafngamlir.

Scan10001

 


Að vera í liði

Það er til fólk sem aldrei hefur "verið í liði" eins og sagt er. Þarf þess ekki, "getur alveg komist af á eigin spýtur". Aldrei átt sér stað í hóp, litlum eða stórum, þar sem hver og einn er einstakur, en þarf samt svo mikið á öllum hinum að halda. Það getur verið leikarahópurinn á sviðinu, fótboltaliðið á vellinum, eða stuðningsmannahópurinn í stúkunni. Það getur verið samhenti hópurinn sem undirbýr Unglingalandsmót á Selfossi eða strákahópurinn sem fór saman í éppaferð um helgina. Og fjölskyldurnar allar sem hittast á ættarmótum vítt og breitt um landið eru aldeilis nauðsynlegt lið fyrir flesta. Hópur vinnufélaga á krefjandi vinnustað er oft ómetanlegt úrvalslið.Mér finnst gott að vera í lið og ég þarf á því að halda.

Geta ekki bara Færeyingar tekið við okkur?

Ég er alveg óskaplega hugsi núna.
Maður er úrskurðaður opinber starfsmaður í fyrradag og þar með ljóst að ekki sé hægt að reka hann frá starfi nema hann brjóti lög.
Já einmitt það. Maðurinn drífur sig þá að brjóta lögin- samdægurs eða um það bil, svo þeim sem vilja reka hann séu nú allir vegir færir til þess?
Fyrirvaralítið lýsir ráðherra umsvifalaust stuðningi við "rekstrarfólkið", en " veit þó eiginlega ekkert um málið".
Ef ekki er skítalykt af þessu eins og svo mörgu öðru hér á skerinu núna "þá skal ég hundur heita".
Var ekki einhversstaðar verið að tala um að reyna að úthýsa hér skipulögðum glæpahópum?
Hver ræður hver er glæpamaður og hver ekki?
Ég held ekki með neinum og veit ekkert meira en suðsvartur lýðurinn, en einhversstaðar í okkar opinbera kerfi er snákur á ferð, líklega margir snákar og feitir.
Ég er ekki fjármálasérfræðingur og ég hef ekkert vit á pólitík, en mér líður eins og skynsamleast væri að við reyndum - bara einhver sem á síma og inneign, að hafa samband við lögmanninn í Færeyjum til að spyrja hvort hann geti ekki laumað okkur undir vænginn hjá drottningunni í Danmörku, bara svona sem eins konar "meðafla"?
Mér líður ekki vel sem "sjálfstæðum Íslendingi".

Þessi dagur kemur aldrei aftur

Ég vaknaði illa í morgun. Þannig háttar til við mína sæng að þar er útvarpsvekjari sem lætur í sér heyra á mínútunni sjö alla virka daga. Þá eru fréttir og ég heyri hvar og hversu margir hafi verið drepnir í heiminum síðustu nótt.
Hvað voru margir hirtir akandi undir áhrifum á höfuðborgarsvæðinu. Ja - oftast á höfuðborgasarsvæðinu, verður nú víst að segja svo allrar sanngirni sé gætt. Hvar var brotist inn og hvað margir barðir í klessu.
Það gerist ekkert jákvætt um nætur.
En svo kemur alltaf ljúf tónlist á eftir þessari upptalningu og þulurinn er svo mjúkur í röddinni að manni finnst svo sem ekkert tiltökumál þó hann sé að segja frá öllum leiðindunum.
En í morgun brá heldur harkalega útaf vananum.
Jú - vekjarinn virkaði alveg og það voru sagðar fréttir, en með þvílikum látum tveggja einstaklinga, karls og konu, að enn hefur mér ekki tekist að grafa úr undirmeðvitundinni hvar í heiminum flestir voru drepnir og enn síður hvað löggan í Reykjavík var að bardúsa í nótt. Ég fékk bara einfaldlega áfall og hrökklaðist fram úr rúminu þrjár mínútur yfir sjö, klæddi mig í hvelli og forðaði mér fram.
Og einmitt í dag! Það var starfsdagur í skólanum, sem þýðir að þar eru engin börn, heldur bara við starfsfólkið og dundum við eitt og annað sem ekki er hægt að gera með húsið fullt af börnum.
Reyndar núna bara hluti af vinnufélögunum, alla vega tveir þriðju fóru í gær ti New York í kynnisferð.
Þess vegna hafði ég, þar sem dagurinn átti að verða óvenju notalegur, ætlað mér að kúra alveg til hálf átta, vakna mjjög rólega og rölta svo bara af stað einhverntíman rétt fyrir átta.
En strax í upphafi var þessu skipulagi rústað.
Ég fór ekki með til NY í þetta sinn þó mér hafi alltaf fundist gaman í svona skólaferðum.
Þegar byrjað var að skipuleggja ferðina var ég að skipuleggja stóra ferð til Rússlands og ákvað strax að láta það nægja þetta árið. Enda frekar líklegt að ég hefði tafið fyrir hópnum í vegabréfaskoðuninni með nýlegan stimpil frá "fyrrum Sovét". Nei, ég segi nú bara svona, er það ekki liðin tíð?
Ég var komin í skólann korter fyrir átta eins og venjulega, og vissulega varð dagurinn barnlaus og rólegur.
En það voru fleiri en ég sem höfðu fengið létt áfall við fótaferð.
Svo lengi sem ég ekki vissi hverju þetta sætti, að bara í tilefni hlaupársdagsins hefði verið ákveðið að hrekkja mis morgunfúla skattgreiðendur-- já á meðan ég hélt að þetta yrði varanlegur morgunglaðningur, þá var ég búin að ákveða að henda útvarpsvekjaranum og fá mér gamaldags vekjaraklukku.

Yrsa varð að víkja fyrir Hreppamanninum

Ég geri aldrei ráð fyrir að fá bækur í jólagjöf. Þess vegna fer ég í bókasafnið fyrir jólin og næ mér í eitthvað sem ég held að geti haldið mér vakandi fram eftir nóttum í fríinu. Í þetta sinn valdi ég bókina hennnar Yrsu frá í fyrra,
"Ég man þig" heitir hún og eftir bestu heimildum er hún svo spennandi að "eigi verði sleppt fyrr en lokið sé", eða jafnvel "að eigi sé lokið vegna hræðslumartraða". Alla vega fannst mér þetta fullkomin bók til að lesa undir sæng í jólafíi og ég mátti hafa hana fram í miðjan janúar.
Svo komu jólin og allt það stúss,ég byrjaði að lesa tveim kvöldum fyrir jól og var þá svo úrvinda af húsmóðurlegum skyldum að ég náði aldrei nema tveimur síðum á kvöldi, en ekki fann ég neina spennu þar.

Á aðfangadagskvöld fékk ég svo alla pakkana eins og vera ber og þar í leyndist óvænt lesefni.
Hreppamaðurinn- heldarútgáfa þess ágæta rits.
Síðan hef ég lesið frá orði til orðs öll tólf heftin og lauk því í kvöld.
Hreppamaðurinn er gefinn út af bónda í Hrunamannahreppi á árunum 1956-72.
Bjarna Guðmundssyni í Hörgsholti.
Hann ýmist handskrifaði eða vélritaði og gaf út sjálfur, einstaka greinar eru frá öðrum, en það er bara smábrot.
Mikill dæmalaus snillingur hefur þessi maður verið, við bara vissum það ekki þá. Fannst hann skrýtinn og sérvitur, sem hann kannski var líka ,en hann var bara svo langt á undan sinni samtíð í mörgu og ótrúlega skynsamur í hugsun.
Hann hvatti til uppgræðslu á Hrunamannaafrétti 1958- þar vildi hann láta dreifa fræi og áburði með "sáðflugu". Þetta var svo gert löngu seinna, en örugglega einhver annar eignað sér hugmyndina.
Fyrir 1960 taldi hann fram öll rök fyrir því að sameina sveitirnar fjórar, Tungur Skeið og Hreppana.
Tungurnar urðu að vera með af því annars yrðu eintóm vandræði með Auðsholtsbæina.
Seinna hallaðist hann að því að best myndi að sameina allt á milli Þjórsár og Hvítár- löngu áður en nokkrum "snjöllum sveitarstjórnarmanni" datt slíkt í hug.
Hann skrifar 1959, með greinargóðum rökum----

10 atriði í nýja stjórnarskrá"

1. Fyrst á að skipta landinu í 7 fylki með 7 manna stjórn í hverju.

2. Fylkisstjórar verði einnig alþingismenn í 7 ár í einu, og endurkosnir ef vel reynast.

3. Hverju fylki skal skipta í 3 kjördæmi og kjósa einn alþingismann í hverju kjördæmi til þriggja ára í einu.

4. Sjöunda hvert ár skal kjósa í viðbót við 7 fylkja og 21 kjördæmaþingmann, 7 alþingismenn með þjóðaratkvæðagreiðslu.

5. Forseta Íslands skal kjósa sama dag og hina 7 þjóðkjörnu þingmenn.
Hann verði þjóðkjörinn forsætisráðherra og forseti óslitið í 7 ár.

6. Forsetinn á að velja sér 6 valinkunna menn í ríkisstjórn til 7 ára með samþykki alþingis. Þeir þurfa ekki að vera alþingismenn.

7. varamaður forsetans og alþingismanna verða þeir sem næstflest atkvæði fá við kosningar.

8. Öllum "listamönnum" skal raðað á kosningalistana eftir stafrófsröð.

9. Kjósendur eiga að skrifa tölustafina 1-7 framanvið nöfnin eftir sínu áliti á mönnunum.

10. Forsetinn eigi sæti og atkvæðisrétt á Alþingi. Þannig yrðu þingmenn 36.

Þetta eru tillögur Bjarna Guðmundssonar í Hörgsholti 31/5 1959.
Ég vona að hann sé sáttur við mig þó ég birti þetta hér.

Bjarni var ekki ókunnugur Alþingi.
Hann sat þar oft á pöllum og fylgdist með því sem fram fór. Hann var á búnaðarþingi, hann sótti kaffihús í Reykjavík og gisti á hótelum, bæði í borginni og útum land. Hann ferðaðist um landið, ríðandi í heimabyggð, en svo með rútum og mjólkurbílum, gangandi ef ekki bauðst annað. Hann var gott skáld og eru ritin full af ljóðum.
Mörg eru þar á kristilegum nótum en líka um daglegt amstur sveitamannsins.
Hann þekkti fólk útum allt land. Hann orti vísur fyrir fjöldamörg fyrirtæki, mörg í Reykjavík, auglýsingavísur sem hann birti í Hreppamanninum.
Í einu brást honum þó spádómsgáfan: Hann gerði ráð fyrir því að Íslendingum fjölgaði mun hraðar en orðið hefur, taldi víst að í Flóanum yrði, innan þó einhvers árafjölda, borg með 2.000.000 íbúum. Og á landinu öllu byggju þá á bilinu 7- 10.000.000. Og hann kunni ráð til að fæða allt þetta fólk.
Þetta er eðlilegur misreikningur, þar sem sjálfsagt þótti þá að hjón ættu alla vega í kringum tíu börn.
Þá var ekkert farið að vesenast með pillur eða smokka.
Ég vildi að ég hefði vitað þetta allt miklu fyrr, og að ég hefði hitt hann eftir að ég komst til vits og ára.
Væri Bjarni til í dag væri hann örugglega bloggari, eins og hún Eyrún sagði. Hann væri bloggari sem mark væri tekið á-- nema þá- já nema hann væri þá bara enn áratugum á undan okkur og væri að skrifa um og viðra hugmyndir að því sem við kannski reynum að koma í verk árið 2049?


Hvað gerir þetta "Samband íslenskra sveitarfélaga"?

Það á að fara að byggja hjúkrunarheimili í Keflavík- sem heitir reyndar núna Reykjanesbær og ég get alls ekki fellt mig við það nafn. En það var nú ekki aðalmálið. Það er hjúkrunarheimilið sem ég er að hugsa um.
Sjálfsagt er full þörf á svona heimili á Reykjanesinu, það vantar alls staðar heimili fyrir gamalt fólk og bara gott að byggt sé sem víðast á landinu. Þegar ég var að hlusta á fréttirnar um þetta áðan, fór ég að hugsa:
Okkur, hér á Selfossi vantar líka svona heimili, sárvantar og hefur vantað í mörg ár, en ekki einu sinni á offjárfestingatímabilinu 2000- 2007 fann nokkur ráðandi manneskja þörf hjá sér til að bæta þar úr.
Heimili fyrir gamalt fólk voru ekkert "smart" í pólitíkinni á þeim árum
Bæjarstjórinn á Reykjanesinu sagði hróðugur í fréttunum í kvöld: "Nú förum við að undirbúa teiknivinnu og vonandi fer verkið á fullt á næsta ári". Lá við að hann bætti við-- hohohooo, svo montinn vara hann. Gott hjá þeim.
Það var þegar ég heyrði hann nefna "teiknivinnu" sem heilinn í mér fór að krauma.
Öll sveitarfélög á Íslandi hafa með sér samtök, sem heita "Samband íslenskra sveitarfélaga". Ef ég réði einhverju í sveitarstjórnarmálum myndi ég mælast til að þessi samtök gerðu í því að bæta samvinnu sveitarfélaganna, til dæmis með því að nota svona rándýra "teiknivinnu" á fleiri en einum stað. Örugglega er verið að undirbúa hjúkrunarheimili víðar en í "Keflavík" og hvers vegna ætti þá ekki að vinna saman til sparnaðar? Eins mætti gera í tilfellinu skólabyggingar og sjálfsagt fleira. Líklegra er að fyrir hvern einasta stað verði keypt dýr undirbúningsvinna ef eða þegar til þess kemur að byggja og ég er bara ekkert sátt við það fyrirkomulag. Með því móti eru hverfandi líkur á að hafist verði handa hér, og sjálfsagt víða annarsstaðar. En ég vil að byggt verði svona heimili hér á Selfossi áður en minn tími kemur-- og hann færist nær með hverju kjörtímabili. Nú verð ég óvinsæl hjá arkitektastéttinni, en það hefur bara allt sín takmörk,málið snýst um að draga úr flottræfilshættinum, við "eigum ekki bót fyrir boruna á okkur".

Fasteignir í eigu bankanna

Hvernig skyldi það vera, þegar bankarnir eignast fasteignir, bara svona "óforvarendis" eins og við höfum orðið vitni að á síðustu missserum og árum, hver á að sjá um þessar eignir?
Að þær haldi verðmæti sínu og séu ekki til skammar í umhverfinu?
Stundum heilu hverfin af einbýlishúsum með lóðum sem einu sinni voru fallegir garðar, eða blokkabyggingar með tugum eða hundruðum íbúða.
Er enginn sem sér um að þessu sé haldið við svo skammlaust sé.
Mér finnst bara augljóst að allir bankarnir þurfi að ráða sér "umsjónarmann fasteigna" í öllum landshlutum og það væri hægt að skapa vinnu fyrir fjölda manns við að bæta þann skaða sem þegar er orðinn og svo halda í horfinu, svo lengi sem ástandið er eins og það er.
Smiðir og múrarar, málarar, garðyrkjumenn og gröfukallar- þarna er bullandi vinna, en kannski enginn sem á að sjá um að hún sé unnin?
Þarna er akki hægt að bera fyrir sig peningaleysi- bankarnir troðfullir af seðlum sem enginn getur notað- hvernig væri að koma þeim í umferð? Ef ég er að fara með vitleysu og þessi mál eru"í góðum farvegi" hjá bönkunum, þá er sá farvegur bara alls ekki að virka, eða starfsmaðurinn farinn úr landi án þess að segja frá því.

Næsta síða »

Um bloggið

Hér slettir Helga skyrinu...

Höfundur

Helga R. Einarsdóttir
Helga R. Einarsdóttir
Netfang: hresk@mi.is

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • DSCF2187
  • DSCF2186
  • DSCF2180
  • DSCF2214
  • DSCF2208

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.11.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 22
  • Frá upphafi: 197256

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 15
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband