Yrsa varð að víkja fyrir Hreppamanninum

Ég geri aldrei ráð fyrir að fá bækur í jólagjöf. Þess vegna fer ég í bókasafnið fyrir jólin og næ mér í eitthvað sem ég held að geti haldið mér vakandi fram eftir nóttum í fríinu. Í þetta sinn valdi ég bókina hennnar Yrsu frá í fyrra,
"Ég man þig" heitir hún og eftir bestu heimildum er hún svo spennandi að "eigi verði sleppt fyrr en lokið sé", eða jafnvel "að eigi sé lokið vegna hræðslumartraða". Alla vega fannst mér þetta fullkomin bók til að lesa undir sæng í jólafíi og ég mátti hafa hana fram í miðjan janúar.
Svo komu jólin og allt það stúss,ég byrjaði að lesa tveim kvöldum fyrir jól og var þá svo úrvinda af húsmóðurlegum skyldum að ég náði aldrei nema tveimur síðum á kvöldi, en ekki fann ég neina spennu þar.

Á aðfangadagskvöld fékk ég svo alla pakkana eins og vera ber og þar í leyndist óvænt lesefni.
Hreppamaðurinn- heldarútgáfa þess ágæta rits.
Síðan hef ég lesið frá orði til orðs öll tólf heftin og lauk því í kvöld.
Hreppamaðurinn er gefinn út af bónda í Hrunamannahreppi á árunum 1956-72.
Bjarna Guðmundssyni í Hörgsholti.
Hann ýmist handskrifaði eða vélritaði og gaf út sjálfur, einstaka greinar eru frá öðrum, en það er bara smábrot.
Mikill dæmalaus snillingur hefur þessi maður verið, við bara vissum það ekki þá. Fannst hann skrýtinn og sérvitur, sem hann kannski var líka ,en hann var bara svo langt á undan sinni samtíð í mörgu og ótrúlega skynsamur í hugsun.
Hann hvatti til uppgræðslu á Hrunamannaafrétti 1958- þar vildi hann láta dreifa fræi og áburði með "sáðflugu". Þetta var svo gert löngu seinna, en örugglega einhver annar eignað sér hugmyndina.
Fyrir 1960 taldi hann fram öll rök fyrir því að sameina sveitirnar fjórar, Tungur Skeið og Hreppana.
Tungurnar urðu að vera með af því annars yrðu eintóm vandræði með Auðsholtsbæina.
Seinna hallaðist hann að því að best myndi að sameina allt á milli Þjórsár og Hvítár- löngu áður en nokkrum "snjöllum sveitarstjórnarmanni" datt slíkt í hug.
Hann skrifar 1959, með greinargóðum rökum----

10 atriði í nýja stjórnarskrá"

1. Fyrst á að skipta landinu í 7 fylki með 7 manna stjórn í hverju.

2. Fylkisstjórar verði einnig alþingismenn í 7 ár í einu, og endurkosnir ef vel reynast.

3. Hverju fylki skal skipta í 3 kjördæmi og kjósa einn alþingismann í hverju kjördæmi til þriggja ára í einu.

4. Sjöunda hvert ár skal kjósa í viðbót við 7 fylkja og 21 kjördæmaþingmann, 7 alþingismenn með þjóðaratkvæðagreiðslu.

5. Forseta Íslands skal kjósa sama dag og hina 7 þjóðkjörnu þingmenn.
Hann verði þjóðkjörinn forsætisráðherra og forseti óslitið í 7 ár.

6. Forsetinn á að velja sér 6 valinkunna menn í ríkisstjórn til 7 ára með samþykki alþingis. Þeir þurfa ekki að vera alþingismenn.

7. varamaður forsetans og alþingismanna verða þeir sem næstflest atkvæði fá við kosningar.

8. Öllum "listamönnum" skal raðað á kosningalistana eftir stafrófsröð.

9. Kjósendur eiga að skrifa tölustafina 1-7 framanvið nöfnin eftir sínu áliti á mönnunum.

10. Forsetinn eigi sæti og atkvæðisrétt á Alþingi. Þannig yrðu þingmenn 36.

Þetta eru tillögur Bjarna Guðmundssonar í Hörgsholti 31/5 1959.
Ég vona að hann sé sáttur við mig þó ég birti þetta hér.

Bjarni var ekki ókunnugur Alþingi.
Hann sat þar oft á pöllum og fylgdist með því sem fram fór. Hann var á búnaðarþingi, hann sótti kaffihús í Reykjavík og gisti á hótelum, bæði í borginni og útum land. Hann ferðaðist um landið, ríðandi í heimabyggð, en svo með rútum og mjólkurbílum, gangandi ef ekki bauðst annað. Hann var gott skáld og eru ritin full af ljóðum.
Mörg eru þar á kristilegum nótum en líka um daglegt amstur sveitamannsins.
Hann þekkti fólk útum allt land. Hann orti vísur fyrir fjöldamörg fyrirtæki, mörg í Reykjavík, auglýsingavísur sem hann birti í Hreppamanninum.
Í einu brást honum þó spádómsgáfan: Hann gerði ráð fyrir því að Íslendingum fjölgaði mun hraðar en orðið hefur, taldi víst að í Flóanum yrði, innan þó einhvers árafjölda, borg með 2.000.000 íbúum. Og á landinu öllu byggju þá á bilinu 7- 10.000.000. Og hann kunni ráð til að fæða allt þetta fólk.
Þetta er eðlilegur misreikningur, þar sem sjálfsagt þótti þá að hjón ættu alla vega í kringum tíu börn.
Þá var ekkert farið að vesenast með pillur eða smokka.
Ég vildi að ég hefði vitað þetta allt miklu fyrr, og að ég hefði hitt hann eftir að ég komst til vits og ára.
Væri Bjarni til í dag væri hann örugglega bloggari, eins og hún Eyrún sagði. Hann væri bloggari sem mark væri tekið á-- nema þá- já nema hann væri þá bara enn áratugum á undan okkur og væri að skrifa um og viðra hugmyndir að því sem við kannski reynum að koma í verk árið 2049?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Sverrisson

Gleðilegt ár Helga. Það er alltaf gaman að glugga í Hreppamanninn og maður finnur alltaf eitthvað nýtt.
Skemmtileg hugmynd um hvernig hann myndi vera á bloggsíðunum í dag :)

Þorsteinn Sverrisson, 7.1.2012 kl. 22:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hér slettir Helga skyrinu...

Höfundur

Helga R. Einarsdóttir
Helga R. Einarsdóttir
Netfang: hresk@mi.is

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • DSCF2187
  • DSCF2186
  • DSCF2180
  • DSCF2214
  • DSCF2208

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (16.4.): 12
  • Sl. sólarhring: 13
  • Sl. viku: 21
  • Frá upphafi: 196768

Annað

  • Innlit í dag: 12
  • Innlit sl. viku: 18
  • Gestir í dag: 12
  • IP-tölur í dag: 4

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband